Fara í efni

Sækja um starf

Þegar sækja á um starf er mikilvægt að að vanda til verka. Finna þarf áhugavert starf til að sækja um, búa til kynningarefni, sækja um starfið og komast í gegnum atvinnuviðtal með sóma til að landa ráðningu. Hér getur þú nálgast allt það helsta sem þarf til að gera gott kynningarbréf og ferilskrá sem vekur athygli ásamt ráðleggingum fyrir atvinnuviðtal. Auk þess getur þú lesið þig til um hvar og hvernig þú getur fundið störf.

Ferilskrá

Markmiðið með ferilskrá er að ná athygli fyrirtækis og gefa lýsandi upplýsingar um þig til að sýna hvað þú hefur að bjóða. Ferilskráin þarf að gefa góða yfirsýn yfir menntun þína og starfsreynslu auk annarra kosta. Hún þarf að lýsa þér sem hæfum umsækjanda um starfið sem þú ert að sækjast eftir.

Innihald ferilskrárinnar ætti að gefa upplýsingar um menntun, starfsreynslu, námskeið, félagsstörf, tungumála- og tölvukunnáttu, ásamt upplýsingum um færni og styrkleika. Í sumum tilvikum getur átt við að setja inn upplýsingar um útgefið efni, viðurkenningar eða sérhæfða reynslu sem þú býrð yfir og finnst mikilvægt að koma á framfæri vegna starfsins sem sótt er um.

Eðlilegt er að innihald ferilskrár sé mismunandi milli einstaklinga enda endurspeglar hún reynslu, menntun og færni hvers og eins. 

Ferilskrá sem vekur athygli

Útlit ferilskrár og uppsetning er smekksatriði. Þú ættir að velja sniðmát og útlit sem á við þig en talar um leið til fyrirtækisins sem þú ert að sækja um hjá.

Smelltu á myndina til að sjá kynningu á hvernig þú getur gert flotta ferilskrá með Canva.

Hafðu í huga að flott útlit getur unnið með þér og orðið til þess að ferilskráin þín veki athygli umfram aðrar. Útlitið eitt og sér getur dregið upp áhugaverða mynd af þér og jafnvel gefið til kynna að þú sért metnaðarfullur umsækjandi sem hefur brennandi áhuga á starfinu.

Á veraldarvefnum má nálgast aragrúa af hugmyndum og ókeypis sniðmátum sem hægt er að nýta sér. Einnig eru ritvinnsluforrit eins og Word og Open Office með fjölbreytt sniðmát að ferilskrám.

Ferilskráin frá A til Ö

Smelltu á myndina til að kynna þér hvernig þú getur gert vandaða ferilskrá frá A - Ö.

Kynningarbréf

Almennt er æskilegt að senda kynningarbréf til fyrirtækis þegar sótt er um starf. Í því kynnir þú þig, lýsir yfir áhuga á starfinu og færir rök fyrir hæfni þinni og hvernig hún komi til með að nýtist fyrirtækinu. Þegar þú ert að sækja um auglýst starf notar þú kynningabréfið til að svara þeim kröfum sem settar eru fram í atvinnuauglýsingunni.

Við gerð almennra kynningabréfa þarft þú að hafa í huga að koma á framfæri hvaða eiginleikum þú býrð yfir sem nýtast vel í vinnu. Taktu fram helstu styrkleika þína og færni og segðu frá hvernig þeir nýtast vel í vinnu.

 

Gott er að hafa eftirfarandi í huga:

  • Stílaðu bréfið á viðtakanda, taktu fram nafn fyrirtækis og um hvaða starf er að ræða.
  • Vektu athygli strax í upphafi með áhugaverðri setningu um þig.
  • Lýstu yfir ástæðum þess að þú sækir um þetta tiltekna starf, hvað vakti áhuga þinn og löngun til að sinna þessu starfi og/eða ástæðum þess að þú viljir starfa hjá fyrirtækinu og af hverju þér finnist það eftirsóknarverður vinnustaður.
  • Gættu þess að svara hæfniskröfum og þeim verkefnum sem starfið krefst. Þú getur notað orðin úr auglýsingunni en þarft ekki að endurtaka þau öll heldur sýna fram á hvernig þú uppfyllir óskirnar, til dæmis með því að segja frá verkefnum í síðasta starfi.
  • Þegar þú lýsir styrkleikum er einnig gott að nefna dæmi um hvernig þeir hafa nýst í starfi.
  • Það getur verið skemmtilegt að kynningarbréfið sýni svolítið hver þú ert. Má vera í léttum tón til að mynda ef léttlyndi einkennir þig eða nákvæmt ef þú vilt koma þeim styrkleikum á framfæri. Mundu samt að kynningarbréfið á að sýna hver þú ert sem starfsmaður ekki hver þú ert í einkalífinu.
  • Sýndu áhuga á að koma í viðtal til að kynna þig nánar og til að kynnast starfinu og fyrirtækinu betur.
  • Láttu vita ef þú getur byrjað fljótlega sé þess óskað.
  • Fáðu einhvern að lokum til að lesa kynningabréfið yfir til að yfirfara stafsetningu og orðalag.

 

Portfolio - Verkefnamappa

Sum störf krefjast þess að umsækjandi leggi fram „portfolio“ - sem við köllum hér verkefnamöppu. Í verkefnamöppu tekur þú saman yfirlit yfir verkefni sem þú hefur unnið og erfitt er að koma á framfæri í hefðbundinni ferilskrá. Ætlir þú að sækja um starf þar sem þess er krafist að þú komir með verkefnamöppu þarft þú að setja saman möppu sem lýsir vel því sem þú stendur fyrir. Þú þarft að vanda samsetningu efnis og leggja til sýnishorn af verkefnum og verkum sem þú telur mikilvægt að sýna. Verkefnamappan þarf að lýsa hæfni sem gæti nýst í starfinu sem sótt er um. Hún getur verið á allskonar formi svo sem hefðbundin verkefnamappa, vefsíða, myndabók eða annað sem þér dettur í hug. Formið velur þú til samræmis við þau verkefni sem þú ætlar að kynna.

Hafðu í huga að uppfæra reglulega verkefnamöppuna þína og velja hverju sinni það efni sem þú telur að auki möguleika þína á að fá starfið sem þú ert að sækja um.

Atvinnuviðtal

Þegar þér býðst að koma í atvinnuviðtal hefur þá náð ákveðnum áfanga í atvinnuleitinni og ættir að fagna því. Að fá boð í atvinnuviðtal þýðir að atvinnurekandinn hefur valið þig úr hópi umsækjenda eða honum lýst það vel á þig til að hann langar að hitta þig og kynnast því sem þú hefur fram að færa. Hvernig þú kemur fyrir og berð þig að í viðtalinu er því gríðarlega mikilvægt. Sýndu þér og atvinnurekandanum þá virðingu að undirbúa þig vel og vanda til verka.

Gangi þér virkilega vel!

Leiðir til að finna starf

Þegar þú hefur leitina að starfi gætir þú fundið starf samdægurs en meiri líkur eru á að þú þurfir að fara formlegar leiðir við að sækja um. Störf sem eru í boði eru oft auglýst og því eðlilegt að byrja á því að skoða atvinnuauglýsingar, vefsíður ráðningafyrirtækja og samskiptamiðla. Einnig getur verið góður leikur að kíkja inn á vefsíður þeirra fyrirtækja sem þú hefur áhuga á því mörg fyrirtæki auglýsa laus störf á síðunum sínum. 

Á síðunni Hvar finnur þú auglýst störf? getur þú nálgst allar upplýsingar um hvar auglýst störf er að finna. Einnig getur verið áhugavert fyrir þig að kynna þér vel atvinnuleitarmiðillinn Alfreð

 

Það getur verið sterkur leikur að gera reglulega áætlun um næstu skref til að nálgast starf. Í kaflanum Marka stefnu finnur þú líka gagnlegt efni um markmiðssetningu og ákvarðanir ef þú vilt skerpa sýnina á hvert þú vilt stefna.

Taktu frumkvæðið

Fjölmargir ráða sig til starfa með því að hafa beint samband við fyrirtæki til að kynna sig og kanna hvort þar séu einhver laus störf. Talað er um að meirihluti ráðninga fari fram án auglýsingar. Sum fyrirtæki sem þykja sérlega áhugaverð segja líka að þau auglýsi sjaldan eða aldrei. Þegar störf losna hjá þessum fyrirtækjum eru þau þegar með góðar umsóknir hjá sér til að velja úr og þurfa því ekki að auglýsa. Þegar þú ert í atvinnuleit er því mjög skynsamlegt að taka frumkvæðið og nýta þér þessa leið samfara því að sækja um auglýst störf.

Fara í fyrirtæki

Sterkur leikur til að finna starf er að hafa samband við fyrirtæki til að kanna möguleika á starfi. Mikill meirihluti starfa eru aldrei auglýst og það segir okkur að fyrirtækin nota aðrar leiðir við að ráða starfsfólk.

Algengt er þegar fyrirtæki hefur leit að starfskrafti að það leiti fyrst meðal eigin starfsfólks sem það þekkir og er kunnugt starfsemi fyrirtækisins og menningu þess. Síðan skoðar það umsækjendur sem hafa leitað til þess eða spyr samstarfsfólk hvort það þekki einhvern sem gæti hentað í starfið. Því er sterkur leikur fyrir þig að eiga frumkvæðið að samskiptum og hafa samband við fyrirtæki að fyrra bragði til að bjóða starfskrafta þína. Það getur líka gefið þér forskot á aðra atvinnuleitendur.

Þessi aðferð er sérlega sterk á almenna vinnumarkaðnum en leikreglurnar eru svolítið aðrar þegar kemur að ráðningum í framtíðarstörf hjá opinberum fyrirtækjum. Þeim ber samkvæmt lögum að auglýsa öll störf. Tækifæri geta hins vegar legið í því að sækja um tímabundnar ráðningar hjá hinu opinbera sem undanþegnar eru auglýsingaskyldu.

Yfirlit yfir atvinnuleitina

Þegar þú ert að sækja um störf er ráðlegt að halda vel utan um umsóknir og geyma afrit af auglýsingum um störfin. Best er að gera þetta skriflega og er hægt að nota Yfirlit yfir atvinnuleitina til þess. Þetta er mjög mikilvægt til að hafa yfirsýn og vera með allt á hreinu þegar tækifærin bjóðast. Gott skipulag sparar tíma og vesen.

 

Kynntu þig vel

Einn mikilvægasti liðurinn í atvinnuleitinni er að þú náir að kynna þig vel fyrir atvinnurekendum. Þegar þú leggur þig fram við að búa til vandaðar kynningar áttu betri möguleika á ráðningu því fyrsta viðkynning er áhrifaríkust og getur ráðið því hvort þú nærð athygli. Þú þarft að ná sambandi við atvinnurekandann til að koma því á framfæri að þú sért að leita þér að starfi og sért vænlegur kostur fyrir fyrirtækið. Hér getur þú kynnt þér nokkrar leiðir til þess.

Samskipti í atvinnuleit

Hafðu í huga að samskipti við fyrirtæki séu skilvirk, skýr og upplýsandi. Það er alltaf góður siður að halda vel og skipulega utan um atvinnuleitina. Tengslanetið þitt kemur líka alltaf að góðum notum. 

  • Gættu að því að tölvupóstfang sé viðeigandi og lýsandi fyrir nafnið þitt. Stundum getur verið ráð að stofna nýtt póstfang fyrir atvinnuleit til að auðvelda utanumhald og yfirsýn.
  • Skoðaðu tölvupóstinn daglega svo þú missir ekki af tækifærum og svaraðu eins fljótt og auðið er þeim tölvupósti sem þér berst.
  • Svaraðu alltaf þeim símtölum sem þér berast svo þú missir ekki af tækifærunum. Það getur reynst erfitt að finna út eftirá hvaða einstaklingur var að reyna að ná á þig ef þú þarft að hringja til baka í fyrirtækjanúmer.
  • Vandaðu það hvernig þú svarar símtali.
  • Hafðu vandaðan hringitón og talhólfsskilaboð.

Launamál

Algengt er að fólk velti fyrir sér hvaða launakröfur sé eðlilegt að gera þegar starf býðst. Til að búa þig undir umræðuna um laun er gott að skoða eftirfarandi.

  • Kynntu þér vel hver launin eru almennt í starfinu sem þú ert að skoða eða sambærilegum störfum.
  • Skoðaðu launatöflur, launakannanir og upplýsingar hjá stéttarfélögum, ræddu við vini eða samstarfsfólk.
  • Gerðu þér grein fyrir hvaða laun þú ert tilbúin/n að þiggja fyrir umrætt starf.
  • Hafðu í huga að atvinnurekandinn er eflaust með ákveðinn verðmiða á starfinu.
  • Kynntu þér hvaða kröfur og ábyrgð fylgja starfinu.
  • Hafðu í huga kostnað þinn við að sinna starfinu svo sem fjarlægð frá vinnu, samgöngur og sveigjanleika.
  • Veltu fyrir þér tækifærum sem felast í starfinu sem þér gætu þótt áhugaverð svo sem ferðum utan og innanlands á ráðstefnur og fundi sem fylgja starfseminni.
  • Hugsaðu út í hvort gæti verið svigrúm fyrir launahækkun eftir einhvern tíma eða líkur á að geta vaxið í starfi.
  • Hlunnindi gætu verið ígildi launa svo sem námsstyrkir, líkamsræktarstyrkir, menntunarmöguleikar á vinnutíma, samgöngustyrkir, bílastyrkir og símar.
  • Hafðu í huga að stundum er starfið meira virði en tiltekin launaupphæð.

Hvað er til ráða ef ekki gengur að fá starf?

Stundum reynist það leikur einn að landa starfi en það er ekki alltaf svo og þá reynir á seigluna. Hafðu í huga að í atvinnuleitinni ferð þú í gegnum hæðir og lægðir, en mundu þó að með hverri neitun færist þú nær jákvæðu svari og ráðningu.

Það getur tekið verulega á þegar illa gengur að finna starf. Þegar engin störf finnast sem eru spennandi eða þú nærð ekki sambandi við fyrirtækin sem eru að auglýsa störfin er fullkomlega eðlilegt að þú fyllist uppgjöf, en þá er jafnframt afar mikilvægt að reyna eftir fremsta megni að gera þær breytingar sem þarf til að landa starfi.

Hér eru nokkrir punktar sem gætu hjálpað.

  • Taktu frumkvæði. Ekki bíða eftir að rétta starfið komi til þín, það er mikilvægt að taka skref, stíga út fyrir þægindarammann, hringja nokkur símtöl, senda tölvupósta eða gera eitthvað sem þú hefur ekki gert hingað til. Prófaðu nýjar aðferðir!
  • Skín nógu vel í gegn í kynningabréfinu, umsóknarferlinu eða atvinnuviðtalinu að þú sért að sækja um af heilum hug og viljir starfið?
  • Ertu að leggja þig fram við gerð ferilskrár og kynningarbréfs? Vandaðar umsóknir vekja athygli í umsóknarbunkanum.
  • Hefur þú fengið einhvern til að lesa yfir kynningarefnið þitt? Fáðu einhvern sem þú þekkir eða veist að hefur þekkingu í ráðningarmálum til þess að lesa yfir kynningabréfin, ferilskrána þína eða annað efni sem þú sendir frá þér.
  • Sýnir ferilskráin þín og kynningabréfið nægjanlega vel hvers virði þú gætir verið fyrirtækinu? Gefðu viðtakandanum ástæðu til að ráða þig umfram aðra sem uppfylla jafnvel líka allar hæfnikröfurnar sem settar eru fram.
  • Hefur þú undirbúið þig fyrir atvinnuviðtalið? Mikilvægt er að þú aflir þér upplýsinga um starfið sem þú ert að sækja um og hafir kynnt þér fyrirtækið.
  • Hvernig kemur þú fyrir í atvinnuviðtalinu? Hafðu endilega í huga að þegar þú ert boðaður í atvinnuviðtal þá hefur atvinnurekandanum litist vel á þig eins og þú birtist honum í ferliskránni og kynningarbréfinu. Í viðtalinu sjálfu þarftu að spegla jákvæðni, gefa af þér og sýna fram á viðmót og eiginleika sem þú hefur upp á að bjóða.
  • Veltu fyrir þér eins hlutlaust og þú getur hvernig síðasta atvinnuviðtal gekk. Er eitthvað sem kemur upp í huga þinn sem þú hefðir getað gert öðruvísi?
  • Veltu fyrir þér hvaða hæfniskröfur eru gerðar til starfsins.
    • Ef þú ert að sækja um starf þar sem þú telst líklega of hæf/ur gæti verið gagnlegt að fara yfir ferilskrána og umorða eða breyta uppsetningu þannig að hún falli betur að starfinu sem þú ert að sækja um. Einnig gæti verið gott að nota kynningabréfið til að útskýra af hverju þér finnst þetta starf eftirsóknarvert núna þó reynsla þín og þekking nýtist ekki til fulls.
    • Ef þig skortir hæfni í starfið ættir þú að staldra við og velta fyrir þér hvort þetta sé það eftirsóknarvert starf fyrir þig að þú sért tilbúinn að bæta við þekkingu þína til að fá það. Mögulegt gætir þú reynt að vinna sig upp í slíkt starf, taka styttri námskeið eða afla þér viðbótar þekkingar.
    • Veltu fyrir þér hvort þú ert að sækja um störf sem þú hefur ekki, eins og staðan er í dag, hæfni til að sinna því þegar það gerist ferð þú að kalla yfir þig neikvæð viðbrögð og upplifa höfnun að óþörfu.
    • Veltu líka fyrir þér hvort þú vanmetir getu þína. Vanmat getur haft þau áhrif að atvinnuleitin þín verið of afmörkuð og þú hikar við að sækja um störf þegar þér finnst að þú uppfyllir ekki allar kröfur í atvinnuauglýsingum. Þannig missir þú af tækifærum.
  • Hugaðu að því að nýta betur tengslanetið þitt, jafnvel að tengjast betur fólki í ákveðnum greinum. Stór hluti starfa á almennum vinnumarkaði eru ekki auglýst og þá getur tengslanetið nýst vel.
  • Leitaðu þér aðstoðar.

Leitaðu þér aðstoðar ef þú þarft

Ef þú ert ekki alveg tilbúinn til að hefja leita að starfi eða finnst þú þurfa stuðning við atvinnuleitina þá er aðstoð víðar að finna en á þessum vef og um að gera að nýta sér hana. Þú gæti leitað til náms- og starfsráðgjafa, en þeir starfa víða í menntakerfinu, hjá símenntunarmiðstöðvum og sjálfstætt.


Aðilar sem geta veitt aðstoð

  • Símenntunarmiðstöðvar um allt land bjóða upp á náms- og starfsráðgjöf auk símenntunar og framhaldsnáms.
  • Ráðgjafar VIRK- Einstaklingar sem eru í þjónustu hjá VIRK geta leitað aðstoðar um atvinnuleit hjá sínum ráðgjafa.
  • Vinnumálastofnun - Einstaklingar sem eru á atvinnuleysisbótum geta leitað aðstoðar við atvinnuleit hjá ráðgjöfum Vinnumálastofnunar.
  • Multicultural Information Centre /Fjölmenningarsetur gives important information and assistance for people moving to Iceland.

Stjórn á tímanum

Hverjir eru helstu tímaþjófarnir í lífi þínu?

Það er svo mikilvægt að átta sig á öllum þeim tímaþjófum sem eru í kringum okkur. Þekktir tímaþjófar eru sjónvarpið, snjallsíminn, samskiptamiðlar og tölvuleikir. Hjá mörgum er snjallsíminn lúmskasti tímaþjófurinn og oft erfitt að átta sig á hve mikill tími fer í hann. Til að leggja raunhæft mat á hvort einhverjir tímaþjófar eru í lífi þínu getur þú gert tímakönnun í eina viku og farið í viðeigandi breytingar í kjölfarið.

Eins gætir þú haft áhuga á að velta fyrir þér hvort frestunarárátta sé að þvælast fyrir þér.

Þegar þú framkvæmir minkar kvíðinn!

 

Verkfærakistan

Ferilskrár

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Kynningarbréf - Sýnishorn

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Algengar spurningar í atvinnuviðtali

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Hvar getur þú kynnt þig?

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Ferilskrá - Innihald

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Ferilskrá - Uppsetning

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Hvar finnur þú störf?

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Atvinnuviðtalið frá A - Ö

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Spurningar í atvinnuviðtali - Styttri útgáfa

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Spurningar til vinnuveitenda

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Yfirlit yfir umsóknir

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Alfreð - Atvinnuleitarmiðillinn alfred.is

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Næstu skref

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Frestunarárátta

Verkfærið hefur verið vistað undir Niðurstöðurnar mínar

Click on Translation in the top-right corner for English or other languages. It will not be perfect but useful. / Kliknij w tłumaczenie w prawym górnym rogu aby wybrać język angielski lub inny. Nie będzie ono perfekcyjne ale przydatne.

 

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband