Fara í efni

Reglur um úthlutun styrkja til úrræða sem veita þolendum kynferðisofbeldis þjónustu

Reglur um úthlutun styrkja til úrræða sem veita þolendum kynferðisofbeldis þjónustu

1 Inngangur

Úthlutun styrkja frá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði (VIRK) á sér grundvöll í stofnskrá VIRK og í lögum nr. 60/2012 þar sem starfsendurhæfingarsjóðnum er heimilt að styrkja og stuðla með öðrum hætti að rannsóknum, þróun og uppbyggingu í starfsendurhæfingu, einn og sér eða í samstarfi við aðra aðila. Heildarfjárveiting til styrkjaúthlutunar er ákveðin árlega í fjárhagsáætlun VIRK sem samþykkt er af stjórn sjóðsins.

VIRK kaupir starfsendurhæfingarúrræði í samræmi við þarfir þeirra einstaklinga sem njóta þjónustu ráðgjafa stéttarfélaganna. Þessar þarfir eru metnar af ráðgjöfum stéttarfélaganna, sérfræðingum VIRK og utanaðkomandi sérfræðingum og matsaðilum og reynt er að byggja á gagnreyndri þekkingu hvað þetta varðar þegar því verður við komið.

Aðstæður geta verið til staðar þar sem ráðstöfun fjármuna til úrræða sem veita þolendum kynferðisofbeldis þjónustu getur bæði stutt við atvinnuþátttöku einstaklinga og er líkleg til að auka árangur í starfsendurhæfingu. Hér eru sett fram viðmið um ráðstöfun fjár af ráðstöfunarfé VIRK í þess konar úrræði eða verkefni.

2 Markmið og áherslur

Markmið með styrkveitingum til úrræða, sem veita þolendum kynferðisofbeldis þjónustu samkvæmt þessum reglum, er að efla starfsemi þessara úrræða og stuðla að samstarfi við aðila sem veita opið og gjaldfrjálst aðgengi að þjónustu fyrir einstaklinga sem glíma við afleiðingar kynferðisofbeldis. Slík starfsemi gæti nýst þjónustuþegum VIRK auk þess að vera mikilvæg samfélaginu.

3 Ýmis skilyrði

Um er að ræða úrræði með opið aðgengi fyrir einstaklinga. Þjónustan skal vera að mestu gjaldfrjáls fyrir einstaklinga. Veitt skal góð fagleg þjónusta af sérfræðingum sem hafa til þess þekkingu og reynslu. Miðað er við að um sé að ræða starfsemi sem greiðir ekki út arð (non-profit). Viðkomandi úrræði skal vera reiðubúið til að byggja upp gott samstarf við VIRK – Starfsendurhæfingarsjóð.

VIRK mun ekki bera neina rekstrarlega né faglega ábyrgð á starfsemi þeirri sem fær styrk samkvæmt þessum reglum. Aðilar sem tengjast VIRK (m.a. starfsmenn, stjórnarmenn og ráðgjafar stéttarfélaganna) mega ekki koma að rekstri þessara úrræða sem starfsmenn eða stjórnarmenn. Þeir aðilar sem nú þegar eru með samning/samkomulag við VIRK um úrræði í starfsendurhæfingu eða fá árlegan virknistyrk frá VIRK geta ekki sótt um þennan styrk.

Sú rekstrareining sem fær styrk samkvæmt þessum reglum getur ekki reitt sig á áframhaldandi stuðning eða styrk frá VIRK. VIRK fer fram á að umsókn um styrk sé sett fram á þar til gert umsóknareyðublað (Eyð 11.2 Umsóknareyðublað vegna styrkja til úrræða sem veita þolendum kynferðisofbeldis þjónustu). Þar þarf m.a. að tiltaka eftirfarandi þætti:

  • Lýsing á starfseminni sem um ræðir s.s. lýsing á þjónustu og umfangi hennar sem og fjármögnun starfseminnar. Allir þættir skulu settir þannig fram að þeir eru sýnilegir og skiljanlegir.
  • Lýsing á því hvernig starfsemin uppfyllir þau skilyrði sem sett eru fram hér að ofan.
  • Gera þarf grein fyrir fagaðilum sem að starfseminni koma.

4 Umsókn og ákvörðun

Umsóknum um styrki skal skilað rafrænt til sjóðsins á netfangið styrkir@virk.is á fyrrgreindu umsóknareyðublaði sem nálgast má á vefsíðu VIRK. Á eyðublaðinu skal gerð grein fyrir því verkefni sem um ræðir og lagður fram rökstuðningur fyrir styrkveitingu. Umsókn skal uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í þessum reglum.

Ákvarðanir um styrkveitingar eru teknar af framkvæmdastjórn VIRK í apríl ár hvert að fenginni umsögn frá sérfræðingum sjóðsins. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi 10. mars ár hvert til þess að hægt sé að taka afstöðu til þeirra á fundum framkvæmdastjórnar.

5 Fjárhæðir

Heildarfjárhæðir til styrkveitinga koma fram í árlegri fjárhagsáætlun sem samþykkt er af stjórn sjóðsins. Fjárhæðir styrkja geta því verið mismunandi milli ára.

Hámarksfjárhæð styrks til hvers úræðis er þrjár og hálf milljón króna.

6 Afhending styrkja og endurgreiðsla

Sá aðili sem fær samþykktan styrk samkvæmt þessum reglum skal senda reikning til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs fyrir styrkfjárhæðinni eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að styrkveiting hefur verið samþykkt. Breytast aðstæður þannig að styrkþegi bjóði ekki lengur upp á þá þjónustu sem skilgreind var í umsókn og er skilyrði fyrir styrkveitingu, er VIRK einnig heimilt að fara fram á að styrkþegi endurgreiði VIRK þann styrk sem greiddur hefur verið.

Samþykkt fundi framkvæmdastjórnar VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs 22. febrúar 2023.

Hafa samband